Sýningu Bjargar Bábó Sveinbjörnsdóttur lýkur með látum á föstudaginn langa.
,,Af jörðu ertu komin og að jörðu skaltu aftur verða, en í millitíðinni ertu pottaplanta og það er alltaf eitthvað að. Sýningin er etnógrafía á mannflórunni hið ytra og hið innra sem leitast við að þroskast, blómstra og hámarka sjálfið í samfélagi þar sem bestu útgáfur sjálfsins eru ákjósanlegar og alltaf rétt handan við hornið. Hún samanstendur af klippi- og textaverkum sem hafa verið í mótun í nokkur ár. Plönturnar í sýningunni eru allar óheilbrigðar en þær koma úr bók sem ber heitið Jurtahandbókin - 259 innijurtir, hollráð og heilsuvernd og í henni eru ráð og leiðbeiningar um umhirðu ólíkra pottaplantna. Í tungumálinu er ógrynni samlíkinga mannfólks og gróðurs og þær eru vísir að hugarfari okkar um virði og vöxt okkar sjálfs og annarra. Grasið er ekkert endilega grænna hinu megin en þessi fallega hirti garður er kannski bara íþyngjandi, mögulega kanntu betur við þig í fjalllendi, skuggsælum dal, frumskógi eða mýri. Pottaplönturnar syngja hér einsöng undir óm gargandi þrástefs; ekki gleyma að blómstra!"
Staður: Gallerí Úthverfa / Outvert Art Space – Aðalstræti 22 – 400 Ísafjörður